Jurt

Jurtir
Tímabil steingervinga: miðfrumlífsöld til nútíma
Jurtir
Jurtir
Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Plantae
Copeland, 1956
Fylkingar

Grænplöntur

Kímplöntur (Embryophyta)

Nematophyta

Samheiti
  • Chloroplastida Adl et al., 2005
  • Viridiplantae Cavalier-Smith 1981
  • Chlorobionta Jeffrey 1982, emend. Bremer 1985, emend. Lewis and McCourt 2004
  • Chlorobiota Kendrick and Crane 1997

Jurtir eða plöntur (fræðiheiti: Plantae) eru stór hópur lífvera sem telur um 380.000 tegundir og myndar sérstakt ríki, jurtaríkið. Til jurta teljast meðal annars tré, blómplöntur, grös og burknar. Jurtir ljóstillífa sem þýðir að þær fá orku úr sólarljósi. Þær nota grænukorn, sem þær hafa fengið með innanfrumusamlífi við blábakteríur og innihalda blaðgrænu, til að framleiða sykrur úr koltvísýringi og vatni. Nær allar jurtir ljóstillífa. Einu undantekningarnar eru sníkjujurtir sem hafa misst þennan hæfileika og lifa á öðrum jurtum eða sveppum.

Aristóteles skipti öllum lífverum í jurtir og dýr og taldi meðal annars þörunga og sveppi til jurta. Þetta urðu svo jurtaríki (Vegetabilia og síðar Plantae) og dýraríki (Animalia) hjá Carli von Linné. Síðar kom í ljós að ríkið innihélt nokkra óskylda hópa þannig að sveppir og sumar tegundir þörunga voru flutt í sérstök ríki. Í þessari grein er jurtaríkið skilgreint sem allar grænplöntur, og nær þá yfir bæði grænþörunga og kímplöntur (hornmosa, soppmosa, baukmosa, jafna, burkna, barrtré og aðra berfrævinga og dulfrævinga). Erfðafræðilega teljast grænplöntur til fornblaðgrænunga (Archaeplastida), ásamt rauðþörungum (Rhodophyta) og bláþörungum (Glaucophyta).

Um 380.000 tegundir jurta eru þekktar. Þar af er langstærsti hlutinn, um 280.000 tegundir, fræplöntur. Jurtir ná yfir allt frá einfruma lífverum að risavöxnum trjám. Þær framleiða stóran hluta af súrefnissameindum jarðar, og sykrurnar sem þær búa til eru helsti orkugjafi vistkerfa. Aðrar lífverur, þar á meðal dýr, lifa á jurtum, ýmist með því að éta þær beint, eða með því að nærast á öðrum jurtaætum.

Menn hagnýta plöntur með margvíslegum hætti. Korn, ávextir og grænmeti hafa verið mikilvægur hluti af fæðu manna í þúsundir ára. Í sumum tilvikum hafa menn þróað ræktunarafbrigði af tilteknum matjurtum, með valræktun yfir margar aldir. Jurtir eru mikilvæg uppspretta byggingarefna, sem skraut og skriffæri. Menn hafa auk þess nýtt margar jurtir til lækninga og í lyfjagerð.[1][2][3] Jurtir eru meginrannsóknarefni grasafræði, sem er undirgrein líffræði.

  1. Vilmundur Hansen (2000). „Lækningajurtir og galdraplöntur“. Lesbók Morgunblaðsins: 4–5.
  2. Jón Hjaltalín (1872). „Um ýmsar íslenskar lækningajurtir“. Heilbrigðistíðindi (3–4): 30–32.
  3. Ingólfur Davíðsson (1955). „Grös voru notuð gegn hverskyns kvillum fyrr á tímum“. Vísir (159): 5.

© MMXXIII Rich X Search. We shall prevail. All rights reserved. Rich X Search