Dragferja

Dragferja er eins konar flatbátur, aflangur timburfleki eða fljótandi bryggja, sem dregin er yfir vatnfall á streng, er festur er niður beggja megin árinnar. Á strengnum er hert og slakað eftir því sem þarf með vindu, sem niður er sett við annan enda hans. Strengurinn er festur í þá hlið ferjunnar, sem snýr upp í móti straumi, og aftrar því þannig, að ferjuna hreki ofan eftir ánni, en ferjan er hægt og jafnt dregin yfir ána eftir strengnum. Ferjan getur verið svo stór eða lítil sem nauðsynlegt er á þeim eða þeim stað. Þar sem umferð var mikil að sumarlagi yfir stórar ár þurfti ferjan að vera svo stór, að hún gæti í einu tekið nokkra klyfjaða hesta. Dragferja er ólík kláfferju því hún er dregin á vatni en kláfferja er dregin eftir streng sem liggur í lofti.


© MMXXIII Rich X Search. We shall prevail. All rights reserved. Rich X Search