Rihanna

Robyn Rihanna Fenty (f. 20. febrúar 1988), betur þekkt undir millinafninu Rihanna, er barbadosk söngkona, lagasmiður og fyrirsæta. Hún fæddist í Saint Michael á Barbados en flutti til Bandaríkjanna þegar hún var 16 ára til þess að láta reyna á söngferil undir leiðsögn plötuframleiðandans Evan Rogers. Árið 2005 gaf Rihanna út stúdíó-plötuna Music of the Sun sem náði ágætum vinsældum og var vinsælasta lagið á plötunni „Pon de Replay“. Innan árs síðar gaf hún út aðra plötuna sína, A Girl Like Me (2006), sem náði meiri vinsældum en fyrri platan og náði lagið „SOS“ miklum vinsældum ásamt lögunum „Unfaithful“ og „Break It Off“. Þriðja platan hennar, Good Girl Gone Bad (2007), náði öðru sæti á Billboard 200-listanum og átti fimm vinsæl lög: „Umbrella“, „Take a Bow“, „Disturbia“, „Don't Stop the Music“ og „Shut Up and Drive“. Platan var tilnefnd til níu Grammy-verðlauna og vann verðlaun fyrir besta rapp- eða söngsamstarfið fyrir lagið „Umbrella“ sem hún söng með Jay-Z. Rihanna seldi yfir 12 milljónir platna um allan heim á fyrstu fjórum árum ferils síns og hefur fengið nokkur virt verðlaun. Rihanna hefur átt fjórtán smáskífur á toppi Billboard Hot 100-listans. Rihanna var sæmd titli þjóðhetju Barbados þann 30. nóvember 2021 af Miu Mottley forsætisráðherra við hátíðarathöfn þegar Barbados varð að lýðveldi.


© MMXXIII Rich X Search. We shall prevail. All rights reserved. Rich X Search